In memoriam Gunnar Eyjólfsson
Kveðja frá Skálholti
Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Matt. 25.21
Sá hinn góði og trúi þjónn, Gunnar Eyjólfsson, er genginn inn til fagnaðar Herra síns að loknu löngu og drjúgu dagsverki. Hann var sannarlega ekki bara trúr yfir litlu eins og þjónninn í dæmisögunni sem hér var vitnað til, heldur á okkar mannlega mælikvarða einnig yfir miklu. En hann hafði það vinnulag að vera jafn trúr yfir öllum verkefnum, stórum og smáum. Í hans augum voru hin smærri jafn þýðingarmikil hinum meiri. Aðrir munu fjalla um ævi hans og arfleifð. Hér skal aðeins þakkað og þess minnst hversu öflugan vin Skálholt átti í honum.
Hinn 7. nóvember fyrir tveim árum flutti hann síðast ávarp á minningardegi um voðaverkin 7. nóvember 1550 þegar Jón biskup Arason og synir hans Björn og Ari þoldu það píslarvætti að vera leiddir til höggstokksá myrkasta morgni hins nýja siðar. Enginn sem á hlýddi gleymir orðum hans og eldmóði. Við heyrðum blóð hinna myrtu hrópainn í himininn eins og segir í Fyrstu bók Móse (4. 10 ) Drottinn sagði: „Hvað hefurðu gert? Blóð Abels, bróður þíns, hrópar til mín af jörðinni. Fyrir árivar hann einnig þar, en tók ekki til máls. Ég sá til hans síðast þar sem hann sat í bílnum og fylgdist með hópnum sem stóð við minnismerkið um Jón biskup og syni hans og söng upp í vindinn og úrhellið á móti myrkrinu söng kynslóðanna: In Paradisum deducant te Angeli.
Einmitt þannig kveðjum við einnig hann, trúmanninn og predikarann, í þökk og djúpri virðingu.
Til paradísar leiði þig kór englanna. Við heimkomu þína taki á móti þér píslarvottafjöld, og þeir leiði þig heim, inn í borgina heilögu Jerúsalem. (...)
Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun.
Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda. (Sl. 116.8-9)
Kór englanna taki á móti þér, og með Lasarusi sem fyrr var fátækur,
gefi þér Guð hinn eilífa frið.
Kristján Valur Ingólfsson, Skálholti