FYRIRGEFNING

Predikun á Hallgrímsdegi í Saurbæ 26.október 2025

„Ó, Drottinn minn, oss dæm í mildi þinni
að dómur vor sé fyrirgefning þín.
Hið sanna frelsi búið sálu minni
er sonur Guðs sem bætir meinin mín.
Kærleikur Guðs er eins og úthafsströndin,
andvari' í grasi, friðsæl heimalönd.“

Náð sé með yður og  friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.  Amen.
Það er óhætt að segja að það sé alveg ákveðinn rauður þráður í öllum ritningarlestrum þessa dags og eitt lykilorð:  Fyrirgefning.
Guðspjöllin eru m.a. sett saman úr örstuttum sögum og svipmyndum sem auðvelt er að muna og endursegja og svo eru þær tengdar með útskýringum og fróðleik um trúna á þann Guð sem birtist okkur í Jesú Kristi.

Í guðspjallinu í dag  er ein af þessum eftirminnilegu frásögnum. (Mark.2.1-12). Fjórir vinir bera þann fimmta sem lá  lamaður í  rúmi sínu til hússins þar sem Jesús var  í þeim tilgangi að biðja hann að lækna hann. Þegar þeir komust ekki inn í húsið vegna þess að það var troðfullt og löng röð útifyrir, brugðu þeir á það ráð að dröslast með manninn í rúminu upp á þak, gera gat á þakið, binda bönd um rúmið og láta það síga með þeim lamaða niður á gólf fyrir framan Jésú.
Jesús segir þá við lama manninn: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Þessi orð féllu mörgum viðstöddum ekki í geð vegna þess að samkvæmt þeirra lærdómi gat enginn nema Guð fyrirgefið syndir. Þó að þeir segðu það ekki upphátt, vissi Jesús hvað þeir hugsuðu og þess vegna segir hann:
„Hví hugsið þið slíkt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja við lama manninn: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða segja: Statt upp, tak rekkju þína og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald til að fyrirgefa syndir á jörðu,  þá segi ég ykkur,“ – og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín.“
Maðurinn stóð upp, tók jafnskjótt rekkjuna og gekk burt í allra augsýn.

Góð systkin. Þetta er einmitt svona dæmi um vinnubrögð guðspjallamanna: Fyrst kemur lítil og skemmtileg saga og svo kemur kennslustund og fróðleikur um Jesú og hér einnig um hina fjölbreytilegu tengingu líkamlegra og andlegra veikinda og um fyrirgefninguna í því samhengi.
Allt þetta er hugleiðingarefni okkar í dag á minningardegi um Hallgrím Pétursson.

 „Þeir sem, sál mín, syndir drýgja
samviskunni þvert á mót,
undir drottins endurnýja,
ef ekki gjöra á löstum bót.
Við skulum frá þeim flokki flýja
og fyrirgefningar biðja af rót.“  (PS 30.3)

 Það hefði verið viðeigandi þegar við minnumst Hallgríms Péturssonar og boðunar hans að vitna í einhverja predikun hans frá þeim tíma þegar hann talaði til safnaðarins hér í Saurbæ. En við eigum enga slíka,  þó að við eigum annars aðgang að mörgu því sem hann sagði og skrifaði á sínum tíma og hægt er að nálgast í hinu vandaða verki Torfa K. Stefánssonar Hjaltalín um Hallgrím sem útkom í fyrra eins og kunnugt er.  Þar er ekki aðeins útlistun á Passíusálmunum og öðrum kveðskap Hallgríms heldur einnig á lausu máli hans í hugvekjum og bænum.
Að skilningi Hallgríms og samtíma hans var fyrirgefning syndanna, eins og hjá fróðum áheyrendum Jesú samkvæmt guðspjallinu,  eingöngu á valdi Guðs.  Það er að segja fyrirgefning syndanna sem eru brot gegn vilja Guðs og enginn getur því fyrirgefið nema Guð einn. Brot einnar jarðneskrar persónu gagnvart annari er synd vegna þess að að æðasta boðorðið er að elska Guð og náungann, en í daglegu tali er það afbrot og misgjörð gagnvart náunganu, en ekki synd. Það er túlkun og skilningur síðari tíma. Þess vegna brugðust margir áheyrenda Jesú svona við eins og  guðspjallið greinir frá og töldu Jesú vera guðlastara þegar hann sagði við lama manninn: syndir þínar eru fyrirgefnar.  Engu að síður, jafnt á dögum Hallgríms og nú og á öllum tímum,  höfum við leyfi til að mæla fram orð fyrirgefningarinnar til þess sem iðrast, en það er ekki maðurinn sem fyrirgefur heldur orð Guðs sem er orð fyrirgefninarinnar.

Það er tvennt sem vekur sérstaka athygli í þessari frásögn guðspjallsins: Annað er það að þessi atburður er skráður til þess að sýna að Jesús hefur þegið þetta umboð Guðs að fyrirgefa syndir og að samhljómur sé á milli líkama og anda, eða líkama og sálar því að hér verður hið innra samhengi andlegrar og líkamlegrar neyðar sýnilegt. Orðið sem reisir hinn lamaða á fætur sýnir okkur það sem þegar hefur gerst með máttarorði syndafyrirgefningarinnar.
Þau sem standa umhverfis og sjá hinn lamaða fá mátt til að rísa á fætur og ganga, eiga að fá að sjá að orð fyrirgefningar syndanna sem mælt er fram af myndugleika hins fullkomna umboðs Jesús Krists  er ekki innihaldslaust orð, eða  óraunveruleg huggun, heldur raunverulegur atburður sem hjálpar hinum hjálparlausa og frelsar hann til sálar og líkama,
Þannig verða þau sem viðstödd voru vitni að þjónustu sáttarinnar sem við öll erum kölluð til að veita í gagnkvæmri fyrirgefningu okkar á milli, en einnig í heilögu embætti fyrirgefningarinnar.
Því að fyrirgefningin sem er sannarlega fyrst og fremst Guðs, er líka okkar. Með öðrum orðum:  Jesús er sjálfur fyrirgefning Guðs i manninum Jesú, Guðs syni og við eigum hlutdeild í henni.

Hallgrímur kennir okkur að vera þess fullviss að  umhverfis okkur ,- allt um kring sé  vernd Guðs og kraftur Guðs og hans heilögu engla og grundvöllur þess er fyrirgefning Guðs sem birtist í Jesú Kristi. „Hröktu því svo og hrjáðu þig,
herra minn, illskuþjóðir,
hér svo nú bæru á höndum mig
heilagir englar góðir.  …“ Pass 9.9

Í leyndardómi skírnar og kvöldáltíðar mætum við og þiggjum fyrirgefningu Guðs. Við þiggjum hana alltaf sem sérstaka gjöf Guðs í Jesú Kristi.
Það er þess vegna sem við segjum með orðum Jesú sjálfs á okkar eigin tungu: „Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“

Fyrirgefningin er gefin okkur til þess að gefa hana öðrum. Eins og segir í pistli dagsins:  (Ef 4.32) „Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.“
Það sem Páll skrifar hér er endurómur af orðum Jesú Krists:
sem segir: (Lúk 17. 3)  „Ef bróðir þinn syndgar, þá ávíta hann og ef hann sér að sér, þá fyrirgef honum.“
og: (Matt.6.14-15. 14 ) „Ef þið fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra þá mun og faðir ykkar himneskur fyrirgefa ykkur. En ef þið  fyrirgefið ekki öðrum mun faðir ykkar  ekki heldur fyrirgefa misgjörðir ykkar“.

Það þarf ekki að fylgjast lengi með því sem Jesús segir og gerir á jarðvistardögum sínum til að uppgötva að hann breytir viðteknum venjum og gildismati. Hann gefur þeim rétt sem höfðu engan. Hann gaf mátt þeim sem voru minni máttar og þeim sem skorti líkamlegan máttþ  Það voru ekki bara þau sem á einhvern hátt voru sett til hliðar, eða beinlínis útskúfað, eins og til dæmis tollheimtumenn og vændiskonur, það voru líka útlendingar, og það voru konur og það voru börn.
Fyrirgefningin hefur ekkert gildi nema hjá þeim sem hefur þörf fyrir hana, og þörfin verður ekki til nema hjá þeim sem horfast í augu við brot sín og yfirsjónir og sjá eftir þeim.
Það er beinlínis grundvöllur sjálfsþekkingarinnar að horfast í augu við sjálfan sig og viðurkenna sig með sínum kostum og göllum og leyfa kostunum að glíma við gallana og fyrirgefa þá.
Hvernig gæti ég fyrirgefið öðrum ef ég get ekki fyrirgefið sjálfum mér?
Hvað þýðir það að segja mér að ég hafi ekki gert rangt, ef ég veit það? Hvað þýðir að segja mér að ég beri ekki ábyrgð á því sem henti mig ef ég veit það? Hvað þýðir að segja mér að ég skuli ekki hafa sektarkennd, ef ég hef hana?
Það er algengt að heyra undirtón sem segir, - ekki ásaka þig þetta var ekki þér að kenna, - sem sannarlega á mjög oft við en að sjálfsögðu ekki alltaf.
Hversvegna í ósköpunum er annars svona mikið gert til þess að firra sig ábyrgð? Líka á því sem fólk  skammast sín fyrir og ætti að skammast sín fyrir?
Hver er orsökin? Það er til dæmis óttinn við að engin fyrirgefning sé til. Það er óttinn við að horfast í augu við villu síns vegar. Það er óttinn við refsingu.
Og óttinn við refsinguna blindar augun svo maður þorir ekki að trúa á fyrirgefninguna. Fyrr en það er ekkert eftir nema hin blinda uppgjöf frammi fyrir vandanum sem setur mann á hnén og ákallar Guð um hjálp, - hjálp fyrirgefningarinnar.

Hvað er þá fyrirgefning? Sumir óttast að það sé að sættast við það sem rangt var gert, rangindin sjálf og þann sem hið illa verk vann. Öðru nær. Við  sættumst alls ekki við það. Við tökum það í burtu. Það er ekki lengur til. („Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu“ Róm.12.21) .En til þess þarf að horfa dýpra, - að horfa á kjarnann; innsta kjarna lífsins í og með öllum þeim kærleika sem  okkur er gefinn. Þannig elskar maður burt það sem maður hatar. Og það er fyrirgefning.

 Í ýmsum frásögnum guðspjallanna eru  atvik þar sem Jesús fyrirgefur syndir og læknar þar með bæði sál og líkama, Stundum er það tilgreint hvað það er sem þjáir, eins og í guðspjalli dagsins. Hann sér það sem er og það sem var,  fjarlægir það og sá eða sú sem hann ávarpar trúir því að hann geti það.
Þess vegna mælir hann  fyrirgefningarorð sín:
„Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði“. Þú ert heil og ný manneskja. Það sem er liðið það er farið og kemur aldrei aftur og framundan er hið heila, bjarta og góða líf.
Hversu klár sem við annars erum í því að sigrast á eigin vanda, getur alltaf komið að því að við komumst sjálf ekki lengra. Þá verðum við að kalla á hjálp. Og við fáum hana hjá Jesú Kristi. Því að trúin frelsar og fyrirgefur
Og eitt enn í lokin. Er einhver synd svo slæm að hún verði ekki fyrirgefin?
Jesús segir að sú synd að lastmæla gegn heilögum anda (Lúk. 12. 10 Mark 3.29) sé synd sem ekki verði fyrirgefin.  Að lastmæla í þessu samhengi merkir nánast að hæðast að og gera lítið úr hinum heilaga Anda.
Margir guðfræðingar og biblíutúlkendur fyrri alda, alt frá 13.öld túlkuðu þessi orð Jesú þannig  að hér væri til dæmis átt við þau sem hefðu tekið eigið líf . Þau hefðu brotið gegn heilögum anda . Á tímum Hallgríms var það enn algeng túlkun, en þó á undanhaldi, eins og Torfi nefnir í sinni ágætu túlkun Passíusálmanna í Hallgrímsbókinni.
Í 3. versi 16.sálms Passíusálmanna: Um Júdasar iðrun,
segir svo :
„Silfrinu á gólfið grýtti,
gekk þaðan, mjög sér flýtti,
og hengdi sjálfan sig.“

Í 16. Versi sama sálms segir Hallgrímur.
„Synd á mót heilögum anda
held ég hér hafi skeð“.

 Í kirkju Maríu Magdalenu í Vezelay í Frakklandi sem byggð var á 12.öld og er mögnuð að allri gerð, má sjá á einni af burðarsúlum hennar höggmynd sem á engan sinn líka svo vitað sé.  Höggmyndin sýnir Jesú ganga með andaðan líkama Júdasar á öxlinni frá dauðanum til lífsins.

 Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.