Gildi trúarinnar í nútíma samfélagi; jákvæð og neikvæð viðhorf

Forseti Íslands, Herra Guðni Th.Jóhannesson
Heiðruðu fulltrúar og leiðtogar trúfélaganna.
Góðir gestir.

Hjartanlega til hamingju með 10 ára afmæli samstarfs og samtals trúar og trúfélaga hér á Islandi.  Kærar þakkir fyrir að treysta mér til að tala á þessum tímamótum. Það er mér mikill heiður og mikil ánægja. Ég vona sannarlega að ég bregðist ekki því trausti.
Ég hef fengið það verkefni að fjalla um gildi trúarinnarog þar með um leið trúarbragðanna í nútíma samfélagi hér hjá okkur og í alheimssamhengi. Þá er grundvallarspurningin þessi. 
Hvert er þetta gildi?
Ég fann svar sem mér líkaði vel í skýrslu eftir Gunnar Kristjánsson sem hann skrifaði eftir að hafa setið ráðstefnu trúarbragðanna í Höfðaborg í desember 1999. Þar segir:
Trúarbrögðin eru hafin yfir landamæri og því betur til þess fallin en nokkurt annað afl að sameina fólk. Þau eru einnig það svið mannlegs lífs, einstaklinga og samfélags þar sem maðurinn varðveitir vitund um undirstöðugildi í lífinu. Texti frá :Council for a Parliament of the World´s Religions ,Chicago 1993.

Góðir tilheyendur. Þetta er það lykilatriði sem ég geng útfrá í þessu erindi. Ég vil frekar ganga út frá því sem horfir til aukinnar samstöðu og jákvæðrar uppbyggingarheldur en þvi sem dregur upp neikvæða mynd og jafnvel lætur okkur skríða í skjól og að skæla yfir mistökum, aðgerðarleysi eða hömluleysi þeirra sem fremja illvirki og kalla samt eftir samstöðu okkar við því vegna þess að við deilum sömu trúarhugmyndumog þau.
Ef kristinn bróðir minn eða systir mín drepur mann eða limlestir hann þá fordæmi ég þann gjörning og þegar og ef hann eða hún segir við mig : Þú átt að standa með mér vegna þess að þú ert kristinn eins og ég, þá verð ég að segja: Gjörningur þinn er ekki í neinu samræmi við hina kristnu trú, miklu fremur hæðir hann og lítilsvirðir trúna.
Ég get ekki betur séð en að þessi afstaða sé okkar allra að breyttu breytanda.
Ég hef einu sinni á æfinni átt þess kost að sitja sem gestur á Inter-Faith ráðstefnuí Cluj í Rúmeníu.  Það þarf ekki að nefna í þennan hóp það samtal sem fer fram og farið hefur fram á vettvangi InterFaith og Global Ethics um langa hríð. Tæknin og tölvuheimurinn gerir okkur kleift að fylgjast með athurðum og samstarfitrúarbragðanna. Eins og öðru. Þetta samtal ber sannarlega árangur. Það er einkumí þeirri merkingu að einstaklingar sem tilheyra tilteknum trúarbrögðumog játa þá trú sem kennd er við trúarbrögðin eða trúarbrögðin kenna sig til,  þeir koma saman til starfa í vináttu og kærleika og þjónustu við sameiginleg markmið.
Það er engin spurning í mínum huga að það samtal sem nú á sér stað innan hinna kristnu kirkna vegna 500 ára afmælis lúthersku siðbreytingarinnar hefur einnig gert okkur gott að því leyti sem það hefur reynt að laða fram það sem hinar kristnu kirkjur eiga sameiginlega, án þess að horfið sé frá hinu ólíka.
Kæru áheyrendur.
Á ráðstefnunni sem eg sat í Cluj var megin þungi hennar þessi:  Hvernig getum við tryggt frið í heiminum?  Friður verður ekki tryggður nema með gagnkvæmri virðingu. Friður þarf að vera til þess að við getum haldið áfram að tala saman og vinna saman.
Stundið frið við alla menn og heilagt líferni því að án þess fær enginn litið Guð. Er ritað í Hebreabréfinu, (12.14)
Hvernig verður friður til?  Friður er er jafnvægi.  Friður er ekki aðgerðaleysi eða kyrrstaða. Friður er jafnvægi og gagnkvæmur skilningur og virðing fyrir því sem mest og hæst er metið, og er okkur heilagt. 
Við eigum að standa fastan vörð um það sem okkur er heilagt.  Við getum verið nokkuð þolimóð og elskurík allt þangað til á að spilla því sem okkur er heilagt.  Það er þekkt að með þeim mönnum sem eitthvað er heilagt þá vekur það löngun til þess að vernda það og varðveita það. Ég vil berjast fyrir því að það sem er heilagt verði ekki skaðað eða því spillt eða vanvirt af neinum.
Þessa í sjálfu sér heilögu afstöðu okkar mannanna, geta og hafa aðrir menn á öllum tímum notað sér í hag. Misnotað sér í hag. Þeir gera fjendur úr nágrönnum og vinum okkar, gera gesti að glæpamönnum og misyndismönnum, og vilja láta okkur trúa því að við verðum að undiroka þá  og beygja þá því að annars muni þeir spilla því sem okkur er heilagt. Það sem þeir ætlast fyrir er alltaf hið sama: Það er löngun einstaklinga og jafnvel heilla þjóðatil að eignast það sem þeir eiga ekki og fá vald yfir þeim sem þeir ráða ekki. 
Það virðist vera alveg sama hvað okkar eigin söguþekking kennir okkur, það virðast alltaf vera til nógu margir sem tilbúnir eru til að trúa þessu.  
Gagnvart þessum röddum getur trúin í lífi einstaklinga og samtök trúarbragðanna verið afl sem stöðvar óheillaverk og óheillaþróun.
Í stefnulýsingu samráðsvettvangs trúfélaga sem undirituð var hért á Íslandi þennan dag fyrir tíu árum segir svo
Markmið samráðsvettvangsins er að stuðla að umburðarlyndi og virðingu milli fólks með ólík lífsviðhorf og af ólíkum trúarhópum og trúarbrögðum og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi. Slíkt næst ekki með því að samsinna hverju sem er eða láta hvað sem er gagnrýnislaust heldur með því að vera reiðubúinn til þess að hlusta á sjónarmið annarra, setja sig í spor þeirra og virða sjálfákvörðunarrétt sjálfráða einstaklinga og trúfélaga.

Áhrif og gildi trúarinnar samkvæmt trúarbrögðunumeru margvísleg. 
Mestu andstæðurnar liggja annars vegar þar sem fólk af mismunandi trúarbrögðum og með ólíkar trúarskoðanir kemur saman í vináttu og gagnkvæmu trausti og virðingu fyrir hinum ólíku trúarskoðunum,  og hinsvegar þegar einstaklingar eða hópar fremja voðaverk með morðum og og limlestingum, ogeyðileggingu menningarminja og lífsrýmis fólks og rökstyðja illvirkin með trú sinni.  
Við þekkjum öll dæmi um slíkt.  Ég ætla ekki að rekja þau, en leyfi mér að benda á að það er ekki bara hægt að eyðileggja heldur líka skapa menningarminjar út frá  samskonar forsendum. Ég veit ekki hvernig ykkur líður andspænis sigurboga Titusar í Róm.  En það er alveg ómögulegt að horfa á hann án þess að sjá fyrir sér hersveitir Títusar stráfella íbúa Jesrúsalem, ekki síst konur og börn, og fara svo heim og láta reisa þennan boga sér til dýrðar fyrir það illvirki.
Það er mikið umhugsunarefni að Jerúsalem er enn upphaf og vettvangur árekstra sem sannarlega eiga sér trúarlegt bakland. Varla þarf heldur að minna á að enginn kaflinn í sögu kristninnar er ljótari en krossferðirnar og ýmislegt af því sem við sjáum enn í dag má rekja til þeirra.
Trúin er persónuleg mótun og grundvallar afstaða. Trúarbrögðin erusannarlega samtök þeirra sem tilheyra og játa sömu trú, en geta þó samt verið skipt í deildir án nokkurrar einingar í stærstu málum.  Nærtækasta dæmið fyrir þann sem hér stendur er að benda á hinar mörgu kristnu kirkjudeildir í því samhengi. Sambúðarvandi er ekkieinungis milli þeirra sem aðhyllast mismunandi trú, heldur einnig að mestu hina sömu trú.
Við höfum lært það að leggja okkur fram um góða samstöðu í þeim málum sem við erum sammála um, en leggja okkur jafnfram fram um að bera virðingu fyrir þeim atriðum sem við erum ekki sammála um.
Samstaða trúfélagannagetur ekki byggst á því að gera lítið úr þeim mun sem er á milli þeirra. Þvert á móti. Samstaða og samvinna byggir á skýrum prófíl og staðfestu gagnvart trúarsannindum.  Aðeins þau sem eru örugg á þeim grundvelli sem þau standa á geta óhrædd átt samstarf um þau málefni sem þau eru sammála um og haft góðan skilning á því sem þau eru ósammála um.
Það má hafa til hliðsjónar hjónaband einstaklinga frá mismunandi trúarskoðunum og trúarbrögðum.  Ef þau iðka ekki trú sína í gagnkvæmu trausti og virðingu hvort fyrir öðru en reyna að sammælast um einhverskonar sameiginlegan rauðan þráð beggja, er hætta á að það verði engin trú og engin trúariðkun á því heimili, og ef börnin eiga svo að velja sjálf síðar hvert þau vilji stefna í trúarefnum er hætta á að þau velji ekki neitt. Og hafi enga trú.
Í því samtali trúarbragðannasem okkur þykir mest til koma, er mikil áhersla lögð á að það verði að vera hreinskipt og byggist á gagnkvæmri virðingu. Þar eigi að koma fram það semsamræðuaðilum líkar vel við trúarbrögð hins og talið er lærdómsríkt og til eftirbreytniog það sem þeim líkar illa, eða álíta jafnvel mannskemmandi eða hættulegt öðrumtrúarbrögðum. Annars sé samtalið of léttvægt og leiði jafnvel til trúarbragðahrærigrauts.
Mikill hluti þessa samtals gerist á akademiskum grunni.  Í akademiskum saræðum er auðveldast að sýna trúarbrögðunum virðingu, viðurkenna styrkleika þeirra og um leið veikleika þeirra og hætturnar sem í þeim kunna að felast. Óvíst er hversu mikil áhrif þetta samtal nær út fyrir veggi háskólanna eða hefur almennt gildi meðal þeirra sem aðhyllast tiltekna trú. 
Í skýrslu Gunnars Kristjánssonar um þingið í Höfðaborgsem fyrr var nefnd vitnar hann í fyrirlesturNelsons Mandela þar sem hann fjallaði m.a. um gildi trúarinnar fyrir eigin mótun og í baráttu fyrir mannréttindum í Suður-Afríku:  Mandela sagði þar:  Mín kynslóð er afrakstur trúarlegrar menntunar”. Hann nefndi kristna menn, hindúa, múslima og gyðinga sem hefðu komið á fót skólum fyrir svört börn á tímum aðskilnaðarstefnunnar. 
Og svo sagði hann: Hefðu þessir trúarlegu skólar ekki verið þá væri ég ekki hér í dag.  Hann sagði einnig: Þeir sem voru í fangelsi á tímum apartheid kunnu að meta trúarbrögðin” því að það voru fulltrúar þeirra sem heimsóttu fangana reglulega og gáfu þeim sífellt nýja von. Trúin var einn mikilvægasti þátturinn í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur og mun enn sem fyrr gegna lykilhlutverki núna þegar mannkynið stendur frammi fyrir mörgum óhemjustórum úrlausnarefnum. 
Þau verkefni sagði hann, eru ekki aðeins efnahagslegs eðlis heldur andlegs eðlis:  og ekkert minna en endurskoðun á gildismati.

Í Höfðaborg á sama tíma var einnig Dalai Lama. 
Hann sagði það að hann væri búddamunkur sem gerði sér ávallt far um að vinna að mannúðlegum málefnum án þess að boða búddisma um leið: “Kjarni málsins er að þjóna öðrum og sýna umhyggju. Hver maður verður að þroska með sér löngun í þessa átt, fyrst er að eignast innri styrk, og þá  er maður hæfur til að þjóna öðrum. Allir menn bera ábyrgð á öðrum mönnum og jafnframt á jörðinni í heild.”

Góðir tilheyrendur.
Ég fékk nýverið það hlutverk á fundi í Þýskalandi að tala um föðurlandið. Það er, hugtakið sjálft, föðurland, og merkingu þess. Það var nærri því jafn vandasamt hlutverk og það sem hvílir á mér hér og nú.
Eins og gefur að skilja er verulegur munur á því hvernig hugsað er og talað um föðurlandið  í Þýskalandi og hér á Íslandi. Ein megin ástæða þess er sú að við sem búum á Íslandi þekkjum vart eða ekki þær aðstæður þegar einhver utanaðkomandi ásælist yfirráð yfir landinu með hervaldi, með stríði og blóðsúthellingum.  Við þurfum að fletta upp í Sturlungu til að sjá þess háttar aðgerðir.
Þar hefur fjarlægðin og smæðin og merkingarleysið og kannski kuldinn hjálpað okkur. Föðurland í trúarlegri merkingu er varla til nema það föðurland sem er á himnum, og svo í sjómannasálminum sem segir Föðurland vort hálft er hafið.
Flestar þjóðir og lönd eiga aðra sögu, vegna þess hversu ríksú tilhneyging er að ásælast það sem maður ekki á, og taka sér vald sem maður hefur ekki. Eins og hér var áður nefnt.
En einmitt þessi einkenni spilla sambúð fólks og þjóða og ekki síst trúarbragðanna. Hvort sem þessi iðja er stunduð í nafni þeirra, eða kennd við þau af einhverjum öðrum. Það er áreiðanlega ein ástæða þess hversu margir halda því fram að trúarbrögðin sjálf séu beinlínis uppspretta óeirða og illinda.
Í austurhluta Þýskalands, þar sem áður var þýska alþýðulýðveldið : Deutsche Demokratische Republik, skammstafað DDR, tilheyrðu um það bil 90% íbúanna hinum tveim stóru kristnu kirkjudeildum, kaþólikka og mótmælenda þegar múrinn milli Austur og Vestur Þýskalands var reistur árið 1961. Þegar hann féll árið 1989, aðeins 28 árum síðar voru kristnir íbúar um það bil 25 % samtals. Þessi þróun hefur ekki stöðvast þrátt fyrir sameiningu.
Í Magdeburgeru 87 % íbúanna utan allra trúfélaga. Það er sú borg þar sem þetta hlutfall er hæst. Á stórum svæðum í borgum og sveitum austurþýskalandser staðan áþekk. Um það bil átta af hverjum tíu tilheyra engum trúarbrögðum.
Ég veit að maður á alltaf að forðast alhæfingar. En það er engu að síður umhugsunarefni að einmitt á þessum slóðum er óvildin í garð útlendinga mest.
Á þessum slóðum sýnist manni óhætt að fullyrða að þjóðernið, föðurlandshugmyndafræðin verði að trúarbragaðaígildi.  Sú skelfing og það gríðarlega hatur sem birtist okkur í fólki á götunni og í viðbrögðum á netinu nærist sannarlega ekki af trúarbrögðunum sjálfum heldur af misbrúkun þeirra.
Íblöndun þjóðernis og trúarbragða hefur einmitt oftleitt til mistúlkunnarog misbeitingar trúarbragðanna.
Þegar trúarbrögðin láta beita sér fyrir vagn sem dregin er til bölvunar, tortímingar eða ofbeldis, þegar einstaklingar og hópar eru þjakaðir og undirokaðir ekki einungis með beinum líkamsmeiðingum heldur líka fátæktar og skuldafjötrum og ánauðaroki þeirrar peningastefnu sem lætur peningunum eftir að fjölga sér stjórnlaust og siðlaust verða önnur sjónarmið eins og þau sem ætlað er að göfga mannsandann undir.
Sá sem hér stendur er auðvitað enginn sérfræðingur í heimspólitíkinni, fjarri því, og ekki heldur um trúarbrögðin eða gildi trúar og trúarbragða, enda er það allt sérstakt verkefni fyrir þann vettvang sem við mætumst á í dag þar sem hlusta þarf vel eftir öllum sjónarmiðum, allri reynslu og öllum vonum og væntingum. Hins vegar er ég kristinn maður sem vill vera trúr sínu erindi sem slíkur og eiga sem slíkur aðild að samtali og samstarfi trúfélaganna og trúarbragðanna og mæta hverjum manni í virðingu fyrir trú hans eða hennar, án þess að hvarfla nokkuð af hinum kristna grunni. 
Út frá þeim forsendum ber ég fram þá spurningu sem er grundvöllur þess erindis sem mér var falið að flytja:

Hvert er hið stærsta gildi trúarinnar og trúarbragðanna í samfélagi manna og þjóða nú, árið 2016, andspænis óróleika og rótleysi sem merkja má hér hjá okkur og í næsta nágrenni okkar: Vestur Evrópu og byggist að stærstum hluta á þeim vanda sem við blasir þegar flóttafólk streymir til okkar, vegna þess að aðstæður í þeirra heimalandi eru fullkomlega ömurlegar, óásættanlegar, ólíðandi og niðurlægjandi fyrir alla. Ekki síst hið alþjóðlega samfélag.
Kæru tilheyrendur.
Það sem skiptir mestu máli er að þetta samtal trúarbragðanna og einstaklinga sem aðhyllast og tilheyra mismunandi trú haldi áfram. Að fólk tali saman í vinsemd og gagnkvæmri virðingu með það að markmiði að við eignumst dýpri skilning hvert á öðru, því að án þekkingar og skilnings getum við ekki tileinkað okkur virðingu fyrir siðum og venjum annarra, sem eru annarskonar og öðruvísi en okkar eigin.
En mest af öllu, myndi mig langa til að bera fram þá ósk til ykkar sem hér komið saman að við stöndum traust og kærleiksrík á bak við þau pör sem vilja bindast hjúskaparböndum þó að þau hafi ólíka sögu og ólíkt bakland í trú sinni, þannig að þau geti sinnt hvort sinni trú í gagnkvæmri virðingu og fái sjálf að velja þá trú sem börnin alast upp í  en þau séu ekki skilin eftir í trúarlegu hlutleysi og óvissu.
Ótti skólakerfisins við trúarbrögð og trúarlegan áróður fulltrúa trúfélaganna er skiljanlegur en óásættanlegur. Það er skylda skólans að kynna trúarbrögðin fyrir nemendum og gleyma ekki hinum sögulegu og menningarlegu kristnu gildum samfélagsins þó að kennt sé ekki síður um önnur trúarsamfélög,  því að þekkingin á viðhorfum og trúaratriðum er nauðsynlegur grundvöllur þess umburðarlyndis og jákvæðni sem okkur er nauðsynleg til þess að byggja upp þann betri heim friðar og samstöðu sem við viljum örugglega öll setja á oddinn.

Ég þakka áheyrnina