Messan á fyrstu öldum kristni á Íslandi.

Samkomur kristinnar kirkju voru í sinni fyrstu gerð einfaldar í uppbyggingu sinni og auðskiljanlegar. Fólk hlýddi á Guðs orð og útleggingu þess, söng og baðst fyrir og síðan gekk það fram með gjafir sínar til sameiginlegra þarfa og neytti brauðs og víns kvöldmáltíðarsakramentisins.

Venja er að skipta sögu messunnar í nokkur tímabil. Fyrsta tímabilið er frá upphafi sögu kristninnar til þess að kristni varð ríkistrú í Rómarveldi en annað frá 400 - 800. Þriðja tímabilið, það sem hér er miðað við, er frá 800 - 1200.

Þegar kom fram á 9.öld fjölgaði mjög bænum, lestrum og söngvum messunnar. Ýmislegt atferli klerkdómsins varð flóknara; reyndar svo mjög að það krafðist sérstakra útskýringa. Þetta var tímabil messuskýringanna.

Þegar framkvæmd messunnar varð flóknari og sérstökum seremoníum prestanna fjölgaði jókst bilið milli prestanna og safnaðarins. Söfnuðurinn skildi minna í atferli prestanna og þátttakan hans í messugjörðinni dróst saman.

Með einföldum hætti má orða það svo að í stað þess að söfnuðurinn kæmi saman til að syngja messu fóru prestarnir að messa fyrir fólkið. Jafnvel var talið ástæðulaust að söfnuðurinn væri viðstaddur þegar prestur messaði.

Hin ytri umgjörð messunnar fór líka að skipta meira máli en áður. Skrúði prests og kirkju varð viðhafnarmeiri, tekin var upp regla um liti skrúðans, krossmark var sett á altari og ljósum fjölgaði.

Söfnuðurinn sem í fyrstu hafði neytt brauðs og víns í hverri messu fór strax á 5. og 6.öld að vera sjaldnar til altaris. Kirkjuleiðtogar virðast hafa talið þetta eðlilega þróun, að vissu marki.1215 voru settar reglur um að sérhver kristinn maður skyldi vera til altaris einu sinni á ári, um páskatímann. Að sækja kirkju hvern helgan dag var samt sem áður sjálfsögð skylda.

Á 11.öld breyttist útdeilingaraðferð sakramentisins í þá veru að söfnuðurinn bergði ekki á kaleiknum heldur dýfði brauðinu í vínið. Þegar kemur fram um 1200 neytir söfnuðurinn eingöngu brauðsins. Þessi breyting helst í hendur við áherslubreytingu í kenningum um prestsembættið og hina vígðu þjónustu.

Þeir sem störfuðu að messunni þurftu allir að hafa vígslu til starfa sinna. Þess vegna fjölgaði vígslum og vígslustigum og það þótti æskilegt að taka að minnsta kosti hinar lægri vígslur (eins og djáknavígslu) þótt ekki væri meiningin að verða prestur.

Segja má að þegar kemur fram yfir 1200 sé megineinkenni á þátttöku safnaðar í messunni fyrst og fremst það að koma til kirkjunnar til að sjá og heyra.

Þannig skyldi allur söfnuðurinn að krjúpa og tilbiðja hið heilaga þegar hinu helgaða brauði væri lyft upp í messunni, en hann neytti ekki sakramentisins. Það gerði presturinn einn, fyrir hönd safnaðarins.

Í grundallaratriðum er messan á 13.öld búin að fá á sig það form sem entist allt til seinna Vatikanþingsins um 1965. Söngvar og lestrar hennar eru fastákveðnir og allir á latínu. Messan skiptist í fasta, óbreytanlega, (Ordinarium) liði eins og Kyre, Gloria, Credo, Sanctus og Angus Dei og breytilega (Proprium) liði eins og Introitus, Halleluia,(Sequentiae) og Offertorium.

Messugjörðin og umbúnaður hennar skyldi endurspegla dýrð himinsins. Guðsþjónustan, eða messan, gerist við hlið himnaríkis og í gegnum ferli hennar horfir söfnuðurinn þangað inn.

Ekkert nema hið fegursta og fullkomnasta er samboðið hinu heilaga. Þess vegna koma fram hin fegurstu listaverk og dýrgripir kirkjunnar eins og kaleikar hennar og messuskrúði.

Um atferli prests og safnaðar

Hér fylgja nokkur orð um atferli prests og safnaðar í messu og við athafnir í kirkju. Ráðandi um atferli prests og safnaðar er m.a þetta:

Kirkjuhús eru byggð utan um helgiathafnir kristins safnaðar. Það er meginregla. Frumforsendur byggingarinnar eru því þarfir helgihaldsins. Atferli prests og safnaðar ræðst að nokkru af byggingunni sjálfri.

Prestur er sendur af hinni almennu kirkju en valinn af heimasöfnuði. Þetta endurspeglast í atferli hans í guðsþjónustunni:
Prestur þjónar sendingu hinnar almennu kirkju með því að hann flytur söfnuði boð Drottins og kenningu kirkjunnar. Prestur snýr að söfnuði.

Prestur þjónar söfuði sem leiðtogi hans með því að hann flytur fram bænir safnaðarins og leiðir bænargjörð hans til Guðs. Prestur snýr að altari.

 

Söfnuður kemur saman til samkomuhalds í nafni Jesú Krists. Það er guðsþjónusta. Atferli safnaðar á samkomum hans í nafni Jesú Krists tekur mið af því. Söfnuður gengur inn til fundar við frelsara sinn, hann hlýðir á orð hans, tilbiður hann, biður til hans og lofar hann í orðum og tónum.

Beinar forsendur atferlis prests og safnaðar eru því ma þessar:
Að sýna lotningu hinum lifandi Drottni og auðmýkt hinu heilaga.
Að aga prestinn.
Að kenna söfnuðinum.

 

Hvert er þá hlutverk atferlis?Atferli prests leiðir athygli safnaðar að kjarna þess sem fram fer samkvæmt hinu trúarlega innihaldi og boðskap.  Atferli sem ekki þjónar innihaldi og boðskap athafnarinnar á ekki við. Ef atferli prests og safnaðar agar prestinn en leiðbeinir söfnuðinum, hvað merkirþað?
Atferlið tjáir nærveru Guðs í Jesú Kristi, það tjáir lotningu og virðingu fyrir hinum ósynilega Guði sem er nærri í orði sínu og sakramentum og því sýnilegur í náðarmeðulunum, en einig í nærveru safnaðarins. 
Líkt og í dæmisögunni um miskunnsama samverjann, þar sem Kristur er í senn veitandi og þiggjandi dæmisögunnar, er þjónusta guðsþjónustunnar á sama tíma þjónusta Krists við söfnuð sinn og þjónusta safnaðarins við Krist. 
Þetta er það sem átt er við þegar sagt er að þjónustan sé í Kristi.

Hin raunverulega nálægð Krists í söfnuðinum mótar fremur en nokkuð annað atferlið á samkomum kristninnar, sem og uppbyggingu og innihald guðsþjónustunnar.